Ó bær!

Ó bær minn bær, í blóma þínum felldur,
Nú bryggjur þínar tómar standa vörð.
Í græðgi varstu glæpum ofurseldur
og gröf þín tekin djúpt í eigin svörð.
og bergmál lífs er féll við fjallsins rætur.
Þar fölur máninn einn þitt andlát leit.
Ég man þig enn en minningin hún grætur
sem morgundögg þig tárin lauga heit.

Ó borg mín borg er beygð af kreppu stendur
með brothætt hús er nýreist standa köld.
Í veðurofsa með brot á báðar hendur
þú berst til feygðar er svefninn tekur völd.
Því spilling þig loks yfir tók með öllu
og allt þitt stolt og reisn var sett á bál.
Og ösku þess var dreift um víða völlu
sem einhvers virði var í þinni sál.

Ó land mitt land ég lofa þínar strendur
og lýt í auðmýkt allri þinni dýrð.
Þinn mikli auður féll á fáar hendur
Og fégræðgin nú kastar á þig rýrð.
En þegar ógnir steðji´að okkar landi.
Upp vor bæn rís hátt sem boðaföll.
Þá í þér býr svo undurfagur andi,
er umlýkur og verndar okkur öll.

Ó þjóð mín þjóð, úr þrauta göngum lúin,
en þraukar þó að úr valnum rísir móð.
Þó forustan, sé tryggð og trausti rúin.
Þá trúum við á okkar eigið blóð.
Og þegar eldar gjósa úr iðrum jarðar,
þá Íslensk þjóð til orustu heldur hljóð.
Með eld sem vopn og ís sem brynjur harðar
í æðum brennur norðurljósins glóð.

BT


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband